Guðmundur Felix Grétarsson er gangandi kraftaverk. Aðeins tuttugu og fimm ára gamall missti hann báða handleggi í skelfilegu vinnuslysi, hinn 12. janúar 1998. Baráttusaga Guðmundar Felix hefst hins vegar ekki á þessum örlagaríka degi. Stór áföll og erfiðar aðstæður hafa mætt honum frá því snemma á lífsleiðinni og oftar en ekki voru hans eigin djöflar helstu ljón á vegi, þar sem fíknin meðal annars réð för um langt skeið.
Langþráður draumur hans rættist í janúar 2021, tuttugu og þremur árum eftir slysið, þegar hann fékk nýja handleggi í aðgerð sem markaði tímamót í sögu læknavísindanna. Í ævisögu Guðmundar Felix fá lesendur sér sæti við hlið hans á þeirri rússíbanareið sem líf hans hefur verið. Hann sættist við manninn í speglinum sem hann þekkti ekki áður, tók stjórn á eigin örlögum og fann ástina þegar hann var síst að leita.
Hin þrautreynda fjölmiðlakona Erla Hlynsdóttir skrásetur söguna svo úr verður mögnuð þroskasaga sem snertir allan tilfinningaskalann.