„Klukkan er tvö eftir miðnætti hinn 21. janúar 2019 og ég sit á kirkjutröppunum fyrir framan dómkirkjuna í Köln. Í kvöld tapaði íslenska handboltalandsliðið fyrir Frökkum á HM. Það er nánast enginn á ferli fyrir utan mig, enda niðdimmt, mið nótt og hávetur. Ég ætti að vera sofandi á hóteli landsliðsins, en ég læddist út því ég get ekki meir.
Í langan tíma hef ég reynt að láta einkenni um andlegt og líkamlegt hrun sem vind um eyru þjóta. Fyrir utan erfiðleikana sem fylgja því að eiga við öll þessi einkenni er orðið allt of erfitt að reyna að halda haus og láta eins og ekkert sé innan um liðsfélagana.
Nú þegar mesti gráturinn er yfirstaðinn átta ég mig á því að ég er kominn með algjört ógeð á sjálfum mér, eða öllu heldur þessum brjálaða handboltamanni sem ég bjó til í þeim tilgangi að slökkva á vandamálum sem ég hef glímt við í áraraðir.“
Björgvin Pál Gústavsson þekkja flestir landsmenn sem hinn litríka markvörð íslenska landsliðsins í handbolta. Hann hefur í hvívetna vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í íþrótt sinni og einkennandi stíl sinn, síða ljósa hárið og húðflúraðan líkamann.
Eftir að hafa siglt í strand, bæði andlega og líkamlega, þurfti Björgvin Páll að líta til baka, leita rótanna og rifja upp margar sárar minningar áður en hann gat horft fram á veginn. Á hreinskilinn og persónulegan hátt lýsir hann uppvexti sínum við erfiðar aðstæður, haldreipinu sem hann fann í handboltanum, áratuga feluleiknum sem á endanum varð til þess að hann hrundi og bataferlinu sem enn stendur yfir.
Í samvinnu við Sölva Tryggvason fjölmiðlamann stígur Björgvin Páll hér lokaskrefið í að opna þær dyr sem hann hafði ómeðvitað barist við að halda lokuðum, og segir okkur sína sögu – án filters.