Í Bréfi til mömmu lokar Mikael Torfason þríleik um foreldra sína og sjálfan sig og opnar enn og aftur allar dyr og gáttir fyrir lesendum sínum. Reynsla höfundar og minningar skapa heildstæða frásögn sem er í senn óvægin og kærleiksrík, dæmir ekki en fjallar með einlægni um sammannlegar tilfinningar okkar allra um tengsl foreldra og barna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Bréf til mömmu er dásamleg hljómkviða um ástina; hún er sterk, nístandi og fögur og snertir hvern einasta streng í hjarta manns.
Vigdís Grímsdóttir rithöfundur
Milt og einlægt pönk frá Mikka. Falleg blanda sem virkar!
Jónas Sigurðsson tónlistarmaður
Þessi bók, með öllum sínum heiðarlegu en krefjandi tilfinningum, er ekki bara mikilvæg gjöf til vanrækta barnsins sem býr í okkur öllum og þarf hjálp við að fæðast, hún er líka gjöf til samfélags sem þarf svona frásögn til að fullorðnast.
Hildur Eir Bolladóttir
Í þessu fallega en átakanlega bréfi til mömmu fáum við að ferðast um brothættan heim barns sem ekkert þráir heitar en skilning og tengsl. Þversagnakenndar tilfinningar finna sér farveg í minningabrotum og játningum og úr verður holl og heilandi lesning fyrir barnssálina sem býr í okkur öllum.
Brynhildur Guðjónsdóttir, leikstjóri og leikari