Eftir þrjá daga mun ég hlaupa af stað. Eftir að ég hleyp af stað hafið þið þrjár klukkustundir til að stöðva mig.
Hörður Grímsson á ekki sjö dagana sæla. Hann er að rannsaka ólöglegt verðsamráð stórfyrirtækja en saknar þess að rannsaka alvöru glæpi. Einn daginn heyrir hann undarlega yfirlýsingu óþekkts manns í lokuðu talstöðvarkerfi lögreglunnar. „Eftir þrjá daga mun ég hlaupa af stað. Eftir að ég hleyp af stað hafið þið þrjár klukkustundir til að stöðva mig.“
Þegar sama yfirlýsingin hljómar í talstöðvarkerfinu daginn eftir fær Hörður leyfi til að reyna að komast til botns í þessu dularfulla máli.
Dauðinn einn var vitni er tólfta bókin um rannsóknarlögreglumanninn sérlundaða Hörð Grímsson sem hefur fyrir löngu skipað sér í hóp allra vinsælustu skáldsagnapersóna samtímans.