Hin helga kvöl er þrettánda bókin um rannsóknarlögreglumanninn sérlundaða Hörð Grímsson, sem hefur fyrir löngu skipað sér í hóp allra vinsælustu skáldsagnapersóna samtímans.
Lík af karlmanni finnst skammt frá Reykjanesbraut og Hörður Grímsson er kallaður á vettvang. Líkið reynist vera af fyrrverandi sjómanni sem hafði misst tökin á tilveru sinni í kjölfar alvarlegs vinnuslyss. Ýmislegt bendir til þess að dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti. Hinn látni skuldaði hættulegum manni í undirheimunum og var hundeltur.
Heimspekineminn Indriði Thorarensen heillast af ungri konu sem hann spjallar við í flugvél á leiðinni heim til Íslands frá París. Hann veit ekki hvað konan heitir og missir sjónar á henni eftir að vélin lendir í Keflavík. Indriði býst við að gleyma henni en þess í stað fær hann þráhyggju og fer að leita konunnar, sem hann veit nánast ekkert um.
Hörður kemst að því að hinn látni hringdi í Neyðarlínuna skömmu áður en hann var myrtur. Svo virðist sem hann hafi orðið vitni að alvarlegri árás á unga konu, jafnvel morði. Hörður vill kanna þetta nánar en yfirmaður hans fullyrðir að símtalið hafi verið misskilningur eða gabb, lögreglan hafi þegar kannað málið og engrar konu sé saknað. Hörður er ekki sáttur og ákveður að óhlýðnast yfirboðara sínum. Hann er þrjóskur sem naut og vanur að fara sínar eigin leiðir.