Að missa fóstur getur verið sorgleg reynsla og finna mörg sem í gegnum hana ganga þörf fyrir að afla sér upplýsinga um allt sem missinum tengist.Hverjar eru líkurnar á fósturmissi, hverjar eru helstu orsakir fósturmissis og hvað tekur við eftir missi?
Talið er að ein af hverjum þremur konum missi fóstur á frjósemisskeiði sínu. Rannsóknir og upplýsingar um fósturmissi eru þó af skornum skammti
og er þessi reynsla sveipuð þagnarhjúpi.
Höfundar bókarinnar, sem allar starfa við Háskólann á Akureyri, fjalla um helstu þætti sem koma upp við fósturmissi. Einnig er með reynslusögum þeirra sem misst hafa fóstur varpað ljósi á mismunandi upplifun og viðbrögð við fósturmissi.
Vonast höfundar til að með bókinni fái þau sem ganga í gegnum fósturmissi og aðstandendur þeirra einhver svör við þeim spurningum sem á þeim brenna og finni umfram allt að þau eru ekki ein.
Um höfundana
Júlí Ósk Antonsdóttir er lögfræðingur og starfar sem lögmaður hjá Lögmönnum Norðurlandi og sem aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri. Hún er móðir þriggja dásamlegra barna og þriggja lítilla engla sem fóru eftir 6-11 vikna meðgöngu.
Sigfríður Inga Karlsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir með doktorspróf í ljósmóðurfræði og starfar sem dósent við Háskólann á Akureyri. Hún er móðir þriggja yndislegra stelpna og á einn lítinn engil sem fór eftir 12 vikna meðgöngu.
Sigríður Halldórsdóttir er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í heilbrigðisvísindum og er prófessor við Háskólann á Akureyri. Hún er móðir þriggja gleðigjafa og amma fimm barna. Hún á líka einn lítinn engil á himnum sem fór eftir 10 vikna meðgöngu.