Áratug eftir atburði Svikabirtu sækja illir draumar á Dimmbrá. Djúpt í iðrum jarðar kynnist hún leyndustu kimum seiðsins. Hnikar reikar um heimskautið uns hann finnur ný heimkynni langt í suðri; óafvitandi kallar hann Dimmbrá til sín með ófyrirséðum afleiðingum. Indra vex úr grasi á Bifröst uns hún stígur niður, þess albúin að leggja jörðina að fótum sér. Í bakgrunni er uppruni stjarneyga fólksins, útdauði mannkynsins og endalok skuggabrúarinnar.
Í Heiðmyrkri lýkur Ingi Markússon sögunni sem hófst með Skuggabrúnni og hélt áfram í Svikabirtu, bókum sem vakið hafa verðskuldaða athygli og lof. Heiðmyrkur bindur þríleikinn saman í myrkri frásögn á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar – sögu um vináttuna og hefndina; lífið og eilífðina; vitundina og vélina; ljósið, myrkrið og skugga mannsins.
Ingi Markússon er fæddur og uppalinn í Reykjavík og á Húsatóftum á Skeiðum. Hann er trúarbragðafræðingur að mennt með áherslu á mannshugann, galdra og táknfræði, auk þess að hafa lengi verið viðloðandi raftónlist. Heiðmyrkur er hans þriðja skáldsaga, þær fyrstu, Skuggabrúin og Svikabirta, komu út 2022 og 2023. Áður hafa komið út eftir hann fræðigreinar og hugleiðingar um trúarbrögð og skyld efni.

