Líklega er ekkert tákn um ást, yndi og leyndardóma mannlegra tilfinninga greypt jafn sterkt í vitund mannkynsins og rósin – ímynd hennar og ilmur. Rósir hafa á öllum tímum heillað fólk með fegurð sinni, fjölbreytileika og táknrænu gildi. Þær hafa verið notaðar til skrauts og lækninga, borið boð um ást og sorg, og orðið tákn fyrir það sem ekki verður með orðum sagt.
En geta rósir raunverulega dafnað við íslenskar aðstæður?
Já, sannarlega – með vönduðu vali á yrkjum og réttri umhirðu.
Í þessari bók miðlar Vilhjálmur Lúðvíksson áratugalangri reynslu sinni og Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands af rósarækt við íslenskar aðstæður. Bókin er byggð á viðamiklum tilraunum í heimagörðum og skógargörðum víða um land, auk samskipta við rósaræktendur á Norðurlöndum og í Kanada um þeirra reynslu af ræktun á norðlægum slóðum.
Þekkingunni sem safnast hefur á undanförnum áratugum er miðlað með hagnýtri nálgun og skýrum ráðleggingum um þau atriði sem ráða mestu um árangur í ræktun rósa hér á landi. Yfir 250 rósayrki eru kynnt, mörg sem dafna vel með lágmarksumhirðu, og önnur sem þurfa skynsamlegt staðarval og vandaða umönnun til að ná sínu fegursta.
Vilhjálmur Lúðvíksson hefur stundað garð- og skógrækt í yfir 65 ár. Hann hefur gegnt formennsku í Garðyrkjufélagi Íslands og Rósaklúbbi Garðyrkjufélagsins, auk þess að starfa fyrir Skógræktarfélag Íslands. Hann er efnaverkfræðingur að mennt og starfaði lengst af sem forstöðumaður Rannsóknarráðs Íslands og RANNÍS.