Þetta er ekki bók um hvernig á að ná árangri í fjárfestingum og „sigra markaðinn“ eða verða ríkur á einni nóttu. Þetta er bók um hegðun, viðhorf og sjálfsþekkingu – og þar af leiðandi um hvernig við getum tekið betri og meðvitaðri ákvarðanir.
Farsæld í fjármálum fer ekki endilega eftir því hvað þú kannt. Hún fer eftir því hvernig þú hegðar þér. Og það er erfitt að kenna fólki hegðun, jafnvel eldkláru fólki. Kennsla um peninga fjallar nær alltaf um fjármálin á rökréttan og stærðfræðilegan hátt þar sem alltaf er hægt að reikna sig að réttri niðurstöðu. Sú hlið fjármála er auðvitað til staðar, en við erum tilfinningaverur, skrítnar skrúfur, með flókið samband við peninga og við tökum flestar okkar peningaákvarðanir út frá tilfinningu, ekki rökhyggju. Við tökum þessar ákvarðanir við kvöldverðarborðið eða í fundarherbergi þar sem okkar persónulega reynsla, heimssýn, egó, stolt og hvatar blandast saman og hafa áhrif.
Í Sálfræði peninganna segir metsöluhöfundurinn Morgan Housel 19 stuttar sögur um mannlega peningahegðun og þá áhugaverðu sálfræði sem liggur henni að baki. Höfundur hjálpar lesendum að skilja betur eitt af stóru málunum í lífinu því öll þurfum við að kunna að fara með peninga.
„Mjög aðgengileg bók sem útskýrir á fjölbreyttan hátt eðli peninga. Öll geta tengt við skemmtilegar dæmisögur, óháð bakgrunni og menntun. Bók sem hjálpar okkur að skilgreina hvað felst í okkar eigin auðlegð.“ / ÁSTA FJELDSTED, forstjóri Festi
„Frábær bók sem hittir naglann á höfuðið. Við greiningu á samtímanum og framtíðinni skipta viðhorf og tilfinningar gagnvart efnahagslegum stærðum oft meira máli en rökréttir útreikningar.“ / BERGUR EBBI
„Allir ættu að eiga eintak af þessari bók.“ / JAMES CLEAR, höfundur metsölubókarinnar „Atomic habits“
Georg Lúðvíksson og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir íslenskuðu.