Hver er sagan að baki ungs drengs sem vex upp í Vestmannaeyjum, eitt margra barna fátækra foreldra, sker sig úr hópnum, gerist tónskáld og verður einn af vinsælustu dægurlagahöfundum landsins? Hér er dregin upp mynd af lífi Oddgeirs Kristjánssonar (1911–1966), eins dáðasta dægurlagasmiðs þjóðarinnar, og samferðafólki hans.
Oddgeir lifði á öfgatímum 20. aldarinnar, með tilheyrandi farsóttum, kreppum og heimsstyrjöldum. Þrátt fyrir erfiða tíð gleymdi fólkið í Eyjum ekki að skemmta sér, þegar djassinn dunaði, vísurnar flugu og lög urðu til. Oddgeir var mikill hugsjónamaður og barðist fyrir réttlátu samfélagi þó svo að tónlistin væri alltaf hans ær og kýr. Hann starfaði sem tónlistarkennari, stjórnaði lúðrasveitum og samdi tónlist fyrir Þjóðhátíð í Eyjum. Þannig fengu landsmenn að kynnast fjölda af vinsælli lögum hans, svo sem Bjartar vonir vakna, Ágústnótt, Heima og síðast en ekki síst Ég veit þú kemur, sem er ein skærasta perla íslenskrar dægurtónlistar fyrr og síðar.